Færsluflokkur: Bloggar

Róður...

Það er bara óhróður að íslendingar stundi bara áróður og undirróður,  þeir geta líka stundað kappróður....
mbl.is Íslendingur valinn í úrvalslið Oxfordháskóla í róðri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánleysi KR er algjört..

Algjör snilld... að reka Teit greyið loksins þegar KR far farið að vinna sér inn stig. (Að vísu ekki mörg, en stig samt).  Þá er kallað á Loga, sem að mínu viti er skemmtilegur maður, en frekar staðnaður sem þjálfari.  (Það er varla hægt að hann hafi verið að gera rífandi spennandi hluti undanfarin ár, þjálfa Nördana og vera skemmtilegur á Sýn).  Það er bara að vona að þetta fari allt á versta veg og KR falli í haust, þá getur hann farið að byggja upp frá grunni án pressu frá stjórninni.  En hvað veit ég, það er alls ekkert víst að þetta fari allt til fjandans, - en það er alltaf hægt að láta sig dreyma....

mbl.is Teitur rekinn - Logi stjórnar KR út leiktíðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyjar skulu í eyði...

Þá er það opinbert, Hr. Möller er búin að blása jarðgöngum endanlega út af kortinu. Kemur ekki á óvart, því hafi Sturla verið einþykkur í sinni vega og samgöngupólitík þá er Kristján hálfu þykkari.  Og ef honum finnst eitthvað þá er það bara þannig, púnktur. Honum finnst það óþarfi að kanna frekar gangna kostinn og komast að því hvað  raunverulega er um að ræða. Það er greinilega ekki öll kurl komin til grafar þegar munurinn hjá Ægisdyrum og VST er 32 - 60 milljarðar. Nei best bara að losna við allt þetta gangarugl. Og þar sem Vegagerðin hefur alltaf haft horn í síðu Herjólfs og alls þess vesens sem honum fylgir, þá er ekki að undra að Bakkahöfn verði niðurstaðan.

En það verður til þess að innan nokkurra áratuga verður öll útgerð horfin frá Vestmannaeyjum. Hví skyldu menn vera að landa í Eyjum til þess eins að flytja fiskinn, (unnin eða óunnin) um borð í ferju til að flytja hann upp á fastalandið. Hagræðingin margfræga mun sjá til þess að áður en langt um líður verður búið að koma upp bræðslu og síðan annarri fiskvinnslu við Bakka. Og sjá, - Vestmannaeyjakaupstaður verður orðinn að frístundabyggð innan örfárra áratuga.

Það er annars ótrúlegt hvernig komið hefur verið fram við Vestamannaeyinga í samgöngumálum í gegnum tíðina. T.d. þegar núverandi Herjólfur var hannaður þá átti hann að vera allmörgum metrum lengri en hann er.  Þegar síðan var byrjað að smíða hann , ákváðu misvitrir pólitíkusar að stytta skipið !!, til að spara!! Hvílík önnur eins dómadags vitleysa hefur varla heyrst!! (Að vísu fengu Breiðafjarðarferjan Baldur, og varðskipin Týr og Ægir sömu meðferð hjá pólitíkusunum, til að spara!!) Þessar "sparnaðaraðgerðir" urðu til þess að Herjólfur varð verra sjóskip, gekk hægar og rúmað mun færri bíla. Þegar síðan rekstur Herjólfs var boðinn út fór heldur að hraka með umgengnina um borð og nú er svo komið að það er vissara að hafa alla glugga vel lokaða þegar þú setur bílinn þinn um borð. Annars er ekki víst að þú náir ýldulyktinni úr honum í bráð.  Síðan, þegar þarf að fjölga ferðum, rífur Eimskip bara kjaft og heimtar stóran pening og Vegagerðin dregur lappirnar eins og þeir framast geta.

Það þarf verulega hugarfarsbreytingu hjá stjórnvöldum og vegagerðinni gagnvart Vestamannaeyingum.  Það þarf að fá annan Herjólf strax, og hann þarf að sigla eins og þörf krefur en ekki eftir einhverju niðurnjörvuðu skipulagi.  Það þarf líka að kanna til þrautar möguleikann á jarðgöngum, þannig að allar staðreyndir liggi á borðinu.  Og síðast en ekki síst þarf að fara varlega í Bakkahöfnina vegna þess er ég hef áður bent á.



mbl.is Elliði: Þurfum að vinna sem best út frá þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af eðli katta.

Mikið er þetta nú áhugavert og skemmtilegt að lesa, köttur sem spáir dauða!!!  Það vantar að vísu töluvert af upplýsingum í greinina, en það að New England Journal of Medicine skuli fjalla um þetta er vissulega vísbending um að eitthvað sé til í þessu. 

Vísindamenn eru mjög lengi búnir að reyna að skilja af hverju kettir hegða sér eins og þeir gera t.d. af hverju kettir hegða sér allt öðru vísi innan um fólk heldur en þegar þeir eru einir.  Þegar einhverjir atferlisfræðingar voru búnir að finna út einhverja reglu í hegðunarmunstri kattarins, þá hegðaði kötturinn sér alveg þvert á kenningarnar og því er niðurstaða vísindanna er sú að kettir séu óútreiknanlegir.

Það leiðir hugann að annarri dýrategund sem er líka alveg óútreiknanleg og raunar óskiljanleg  okkur mönnunum, en það er konan.  Það segja okkur lífsspekingar að þær séu svona óskiljanlegar okkur karlkyninu vegna þess að þær stjórnist mun meira af tilfinningum heldur en við þursarnir, sem látum mest línulega rökhugsun ráða gerðum okkar. 

Það hefur því orðið niðurstaða mín, eftir áralanga sambúð við ketti bæði marga og mismunandi, að kettir hafi háþróaða tilfinningagreind, og því séu þeir svona óskiljanlegir hinni köldu rökhyggju vísindanna.  Það eru svo mörg dæmi sem ég hef séð um að kettir skynji ef einhverjum líður illa á heimilinu, er lasin eða á bömmer, að það kemur mér ekkert á óvart að kötturinn Óskar skuli finna á sér hvenær lífsneistinn er að fjara út hjá gamla fólkinu.

Því vil ég biðja alla þá sem þetta lesa, að vera góða við blessaða kettina, því aðgát skal höfð í nærveru sálar.


mbl.is Kötturinn með ljáinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það svona sem alið er á útlendingahatri???

Ég var að lesa bloggsíðu framkvæmdastjóra alþjóðahússins og það sem ég sá þar kom mér til að hugsa:  Er það virkilega satt að þessi menntaði maður trú því að það auki útlendingahatur, að það hafi verið tilgreint að það voru eingöngu pólverjar sem hafa verið gripnir við veiðiþjófnað undanfarið. Hann er með þessum orðum sínum að gera nákvæmlega það sem hann vill að aðrir varist.  Þ.e. að dæma heilu þjóðirnar út frá örfáum einstaklingum. M.ö.o hann vill meina það að íslendingar upp til hópa muni fara að agnúast út í alla pólverja sem þeir sjá út af því að það voru pólverjar að stelast í ár.  Hversu vitlaus heldur maðurinn að fólk sé eiginlega.  Er það virkilega trú þessa manns að það fari einhver að bögga pólsku fiskverkakonuna á næsta borði í HB Granda, út af því að það eru til afbrotamenn í hópi pólverja á Íslandi.  Eg skil bara ekkert í alþjóðahúsinu að reka ekki upp ramakvein vegna þess að það eru svo margir litháar í fangelsum hérna fyrir dópsmygl. Það hlýtur að vera óvært fyrir heiðarlega litháá að búa hér.  Er ekki búið að dæma þá alla af dómstóli götunnar?

Þeir sem stjórna umræðunni um innflytjendur hérna,  stunda skoðanakúgun í stórum stíl. Allir sem ekki eru sammála þeim eru kallaðir útlendingahatarar og haldnir þjóðernishyggju. Það er að mínu viti skoðana og málfrelsi í þessu landi. Það er skemmst að minnast upphlaupsins sem varð þegar Frjálslyndir vildu fara sér hægt í  innflytjendamálum. Það var ekki rökvísinni fyrir að fara hjá andstæðingum Frjálslyndra heldur hrópað, rasistar, útlendingahatarar. Það er fólk þarna úti sem ættu að fara að sjá sóma sinn í því að hætta að dæma alla þjóðina sem útlendingahatara þó einstaka örviti geti ekki hamið sig.  Fólk er almennt skynsamara en svo að dæma allan skógin út frá einu visnuðu tré. Ímínum huga allavega, er fólk ekki fyrst og fremst pólverjar, litháar, grænlendingar eða sómalir heldur manneskjur.


mbl.is Framkvæmdastjóri Alþjóðahúss svarar bréfi formanns SVFR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg frétt.

Það er alltaf gaman þegar fjölmiðlar segja frá einhverju jákvæðu og skemmtilegu.  Það var ekki vanþörf á að sýna okkur hjólafólkið í réttara og jákvæðara ljósi en gert var um daginn, þegar allir vélhjólaökumenn landsins voru úthrópaðir ökuníðingar og glæpamenn.  Það er nefnilega ótrúlegt hvað almenningsálitið er fljótt að sveiflast þegar mótorhjól eru annars vegar.

"Skutlumamman" er að mörgu leiti hinn dæmigerði mótorhjólamaður,  þ.e. það eru miklu fleiri sem vilja bara krúsa um í rólegheitunum og berast með umferðarhraðanum, heldur en þeir sem stunda hraðakstur  og stórsvig í umferðinni.  Það er kannski ekki nema von að margur ökumaðurinn verði ekki var við hjólafólkið nema þegar þegar þeir örfáu sem aka eins og vitleysingar koma í námunda við þá.  Það fer nefnilega ekki mikið fyrir stöku mótorhjóli innan um alla bílana. Því er það ekki að ástæðulausu sem Sniglarnir efna til viðburða til að minna á okkur í umferðinni.

Ég sá líka frétt á rúv í kvöld um stóraukna ásókn í mótorhjólapróf og er það hið besta mál. Því fleiri sem gerast hjólaökumenn, þeim mun meiri líkur á að fólk muni eftir okkur í umferðinni.


mbl.is „Konur eru fyrirmyndar bifhjólaökumenn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju ætla "Saving Iceland" að bjarga?

Það væri gaman að fá að vita hverju þessir vitleysingar sem standa fyrir "Saving Iceland" eru að mótmæla.  Það hefur að vísu komið fram að það sé verið að mótmæla virkjunum og "stóriðjustefnunni",  en ég er ekki miklu nær.  Þær virkjanir sem eru í undirbúningi eru allar í neðri hluta Þjórsár og þar er ekki mikið sem hægt er að vernda af ósnortinni náttúru.  Þjórsánni sjálfri er stýrt allan ársins hring og jökulleirinn hreinsaður úr henni í uppistöðulónum á hálendinu.  Umhverfi  árinnar er að stórum hluta mótað af mannanna verkum s.s. skurðum, túnum, vegum o.þ.h. svo ekki er nú mikið til að vernda þar.  Það væri kannski ráð að redda þeim hjá Saving Iceland gröfu til að grafa nýja skurði fyrir þá sem hverfa undir lón.  Svo er á Suðurlandi Hvítáin sem  er algerlega ósnortin og best að hafa hana þannig, en nota Þjórsána áfram til orkuöflunar.

Stóriðja þarf einhverstaðar að vera og hvers vegna ekki hér hjá okkur sem gerum miklar kröfur til góðrar umgengni við umhverfið og komum vel fram við starfsfólk sem vinnur við stóriðjuverin. Það væri nær að þessir auðnuleysingjar, sem virðast ekki hafa neitt þarfara að gera en að láta eins og fífl, snéru sér að einhverju sem skiptir raunverulegu máli fyrir umhverfið.  T.d. þarf að hjálpa Rússum að eyða ónýtum kjarnorkukafbátum á Kolaskaga og Kínverjum veitti ekki af smá tilsögn í því að minnka loftmengun í stórborgum sínum.  Þegar þessir ofdekruðu forréttindakrakkar eru búin að sanna sig sem raunverulegir umhverfisverndarar, þá er kannski von til þess að einhver taki mark á þeim.


mbl.is Almannahagsmunir réðu aðgerðum lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjáningarfrelsi og "pólítísk rétthugsun".

Það er alltaf sama sagan... það á allt að vera leyft í hinum "frjálsa vestræna heimi" og við þreytumst ekki á því að predika yfir öðrum deildum jarðarinnar hvað það séu nú mikil mannréttindabrot að banna fólki að tjá sig... Allt þar til kemur að hinni "pólitísku rétthugsun"!!!  Þá skal helst stíga á bremsuna og stöðva kjaftavaðalinn áður en eitthvað rangt er sagt, t.d. að gyðingar séu fégráðugar aurasálir og hafi logið upp frásögnum um helförina til að græða á henni.  (Fyrir að halda þessu fram gæti ég lent í fangelsi í ýmsum Evrópulöndum).  Það er eins og þeir sem stjórna því sem má og má ekki í umræðunni, treysti ekki almenningi til að mynda sér skynsamlegar skoðanir á málum og haldi að fólk hafi ekki vit til að sjá hvað er rétt og satt.  Ég hefði haldið að það væri lítið mál að koma réttum upplýsingum til almennings og nóg er af miðlunum til að rökræða við fólk sem heldur fram einhverri vitleysunni.  Það er nefnilega þannig að flestir sem eru að halda fram einhverju bulli, dæma sig sjálfa með skoðunum sínum. En það er alltaf til forsjárhyggjulið sem finnst bara best að banna þetta og nota fjölmiðlaplássið undir fréttir af Parísi Hilton og öðru "mikilvægu" fólki.

Þegar maður heyrir að það eigi að banna Tinna í Kongó, þá fer maður að hald að það sé ekki í lagi með fólk... Hvað heldur þetta blessaða fólk að almenningur geri eftir að það hefur lesið bókina..? Að það fari að trúa því að Afríkubúar séu eins og þeim er lýst í bókinni.  Af hverju er ekki bara prentaðir viðvörunarmiðar og settir í  hvert eintak.? "Lýsing sú sem höfundur gefur af Afríkubúum er skáldskapur og á sér enga stoð í raunveruleikanum"  Það er ekki mikill munur á svona forsjárhyggju og því að verða bálillur yfir skrípamyndum af Spámanninum


mbl.is Tinni í Kongó of fordómafullur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjum Urriðafoss.

Það er mér óskiljanlegt hvers vegna ekki má virkja Urriðafoss og annað það sem hægt er að virkja í neðri hluta Þjórsár.

1. Þjórsá er marg-virkjuð og rennsli hennar í byggð er stýrt allt árið um kring.  Þannig að rennsli hennar er ekki náttúrulegt.

2. Umhverfi árinnar sem fer undir mannvirki og lón er ekki óspillt, langt í frá, heldur hefur búskapur bændanna við ána skilið eftir allskyns varanleg ummerki.  Þannig að ekki er verið að vernda ósnortið land.

3. Sunnlendingar hafa Hvítá sem er eins óspillt og hægt er að búast við í nútíma þjóðfélagi. Er ekki betra að einbeita sér að því að halda henni þannig.

4. Verndunarsinnar tala um að laxagengd spillist við virkjun.  Laxveiði í Þjórsá hefur verið hverfandi svo lengi sem ég man eftir og að ætla að stöðva virkjunina  út frá þeim rökum er að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

Það er í mínum huga alveg morgunljóst að í hvert sinn sem á að virkja á Íslandi, hvort sem er um vatnsaflsvirkjun eða jarðvarma að ræða rísa upp á afturlappirnar náttúruverndarsinnar sem eru á móti. Það er eins og þeir sem eru á móti virkjunum og stóriðju geti ekki sætt sig við að það sé nauðsynlegt að breyta landinu til að framleiða orku. En ég hef ekki hitt þann sem hefur á móti því að það sé ræktuð upp ný tún eða gróðursettur skógur, þó svo að þær aðgerðir breyti ásýnd landsins. Nei, náttúruverndarsinnarnir á Íslandi vilja bara hafa virkjanir og stóriðju einhverstaðar annarsstaðar, helst nógu langt út í heimi þar sem Íslendingar sjá þær ekki, og geta helst gleymt því að það sé til eitthvað sem heitir stóriðja. Mér dettur í hug í þessu sambandi stóra náman í Ingólfsfjallinu sem svo margir eru á móti vegna þess hve mikið líti hún er á landinu. En ef mölin er ekki tekin þarna hvar á þá að taka hana? Einhverstaðar annarsstaðar þar sem sést ekki til frá hringveginum? Eru það ekki náttúruspjöll líka? Og hvað á þá að gera við holuna í fjallinu? Fylla í hana aftur? Nei það er eins með Þjórsá og námuna í Ingólfsfjalli, það er nú þegar búið að nýta ána það mikið að það er engin ástæða til að hætta því núna.  Það verður ekki snúið til baka.  Þegar búið er að virkja þá breytist áin, það vita allir, en það þarf engin að segja mér áin verði eitthvað verri fyrir það...

 


Allt tekur enda...

Það gat ekki verið að KR tapaði endalaust.. en - það hefði verið gaman.
mbl.is Fyrsti sigur KR í Landsbankadeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband