5.9.2007 | 00:41
Skoðanakúgun í Austurríki.
Á tímum þriðja ríkisins var það illa liðið að fólk væri að flíka skoðunum sem ekki voru valdhöfunum þóknanlegar. Fyrir það var fólk fangelsað eða jafnvel eitthvað þaðan af verra. Þessi framkoma er nú til dags fordæmd af okkur vesturlandabúum og sögð lýsandi dæmi um einræði og kúgun. Það er sannarlega gott að tjáningarfrelsið er í hávegum haft hér á vesturlöndum. Eða hvað....
Það er bannað að gefa út Mein Kampf í Þýskalandi og Austurríki og þar er einnig bannað að hafa uppi nasískan áróður og heilsa með Rómarkveðjunni. Brot á þessum lögum geta varðað sektum eða fangelsisvist... Eins og hjá nasistunum eru ákveðnar skoðanir bannaðar. Þrátt fyrir allt tal um tjáningarfrelsi...
Nasismi og þær kenningar sem hann byggir á eru svo heimskulegar og ópraktískar að þeir sem fylgja slíkum kenningum eru sjálfkrafa dæmdir úr leik í allri vitrænni umræðu. Þeir sem boða nasisma sem einhverja lausn í nútíma samfélagi eru að auglýsa eigin heimsku og eru vart svara verðir. En mér finnst samt að ef einhver er svo vitlaus að trúa nasistabullinu þá hafi hann rétt til þess að tjá sig um það. Það er ekki þar með sagt að ég þurfi að vera samþykkur þeim skoðunum eða bera virðingu fyrir þeim á einhvern hátt. Ég hef að sjálfsögðu þann sama rétt til að andmæla viðkomandi, færa rök máli mínu til stuðnings og hrekja þetta kjaftæði.
Þetta er það sem mér finnst að stjórnvöld í þessum löndum ættu að gera, eyða vanþekkingu með fræðslu og sýna almenningi hve heimskulegur nasisminn er. Það ætti t.d. að hafa það sem skylduefni í skólum að kynna ungu fólki Mein Kampf svo það sjái með eigin augum bullið í Adólfi heitnum. Því eins og Megas sagði: Til þess eru vítin að vita þau til þess að geta varast þau. Það er mun hreinlegra fyrir stjórnvöld í Þýskalandi og Austurríki að horfast í augu við fortíðina og hætta að banna fólki að hafa skoðanir.
![]() |
Nasistaáróður á netinu rannsakaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.